Fulltrúar bænda fara í manninn

Fulltrúar bænda bregðast við gagnrýni með því að ráðast persónulega á gagnrýnandann og þá stofnun, sem hann starfar fyrir.  Stórmannlegra væri að bregðast málefnalega við.

Því miður er málstaður bænda erfiður. Íslenskur landbúnaður nýtur meiri ríkisstyrkja en tíðkast meðal flestra þjóða, þ.á.m. Evrópusambandsþjóða.  Íslenskir neytendur búa við skert viðskiptafrelsi og eitt hæsta matarverð í heimi.  Það er löngu tímbært að endurskoða íslenskan landbúnað, sem skerðir kjör neytenda í landinu og veitir bændum léleg kjör, að sögn.

 

Einar Stefánsson


mbl.is Þórólfur: Dæmir sig sjálft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hornhimnulinsa

Þessi kona var blind vegna sjúkdóms, Stevens Johnson heilkennis, sem gerði hornhimnu augans ógegnsæja. Hornhimnan er glæri "glugginn" fremst á auganu, og gengur einnig undir heitinu "glæra". Nokkrar aðferðir eru til að festa gervilinsu í hornhimnuna í tilfellum sem þessum og er einni slíkri aðferð lýst í fréttinni.  Linsan er fest í hornhimnu augans, en ekki í augnbotninn, eins og ranglega segir í fréttinni. Augnbotninn er aftast í auganu, en hornhimnan fremst eins og vel má sjá á mynd sem fylgir fréttinni.

Hefðbundin hornhimnuflutningur er oft notaður til að veita sjón þeim sem eru blindir vegna ógegnsærrar hornhimnu. Hornhimnuflutningar hafa verið stundaðir á Íslandi í nær 30 ár og voru fyrstu og lengst af einu líffæraígræðslur á Íslandi. Slík aðgerð dugar hins vegar oft illa í Stevens Johnson heilkenni og er þá stundum gripið til gervi-hornhimnulinsa.

Wikipedia er með ágæta síðu um "Stevens Johnson syndrome" og má finna hana á Google.

 Einar Stefánsson


mbl.is Græddu tönn í auga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Tillitsleysi Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í máli þessarar 18 ára stúlku er hörmulegt. Læknisrannsókn sem slík getur átt rétt á sér, en á að fara fram í kyrrþey, til að valda viðkomandi íþróttamanni ekki hugarangri og smán.

Einar Stefánsson


mbl.is IAAF stendur ráðþrota frammi fyrir máli Semenya
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangar áherslur í grunnskóla?

Slakur árangur Íslendinga í samanburði við erlend grunnskólabörn er staðfestur enn á ný í nýrri PISA skýrslu. Hvað veldur? Eru Íslendingar svona vitlausir eða er menntakerfið að bregðast?

Á síðustu 40 árum hefur grunnskólakennsla aukist mikið, skóladagurinn verið lengdur, skólaárið lengt og skólaárum fjölgað. Starfsmönnum skólanna hefur fjölgað og stoðþjónusta og sérdeildir hafa verið stofnaðar. Íslendingar voru til skamms tíma með ein hæstu framlög til grunnskóla í alþjóðlegum samanburði.

Á sama tíma hafa áherslur grunnskólans breyst. Meiri áhersla virðist lögð á uppeldishlutverk skólanna og minni á menntamál í þröngri merkingu þess orðs. Kennaramenntun leggur megináherslu á kennslu- og uppeldisfræði, en síður á kennslufögin sjálf, og kemur þetta sérstaklega niður á raungreinum. 

 Spyrja má hvort stefnan í grunnskólamálum og kennaramenntun hafi leitt okkur á ranga braut, þar sem árangur er slakur í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir mikinn tilkostnað, tíma og mannafla. Niðurstöður PISA rannsókna síðustu ára kalla á endurskoðun íslenska grunnskólans og kennaramenntunar í landinu.


mbl.is Ísland undir meðaltali OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rúm fyrir Evrópusinna í Sjálfstæðisflokki?

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur tekið einarða afstöðu gegn Evrópusambandsaðild og mun greinilega beita sér af alefli gegn aðild á komandi árum. Á hinn bóginn er ljóst, að stór hluti Sjálfstæðismanna er hlynntur Evrópusambandsaðild, að vissum skilyrðum umfylltum. Hvað eiga þessir Sjálfstæðismenn að gera, ef Flokkurinn verður alger eintrjáningur í málinu?

 Forysta Sjálfstæðisflokksins verður að hafa einhverja framtíðarsýn um endurreisn þjóðarinnar, efnahagslega og í samfélagi þjóðanna. Það dugir ekki að vera bara á móti. Gegnum áratugina hefur Flokkurinn leitt íslensk utanríkismál, t.d. með inngöngu í EFTA, EES og NATO og í hvert sinn gegn hatrammri andstöðu þjóðernis- og afturhaldsinna. Það er hörmulegt að sjá þingflokkinn skipa sér í síðarnefnda hlutverkið.


mbl.is Staða Þorgerðar Katrínar veikist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundarréttur og einkaleyfi

Hugverkaréttur listamanna er verndaður með höfundarrétti til 70 ára eða lengur, en hugverkaréttur raunvísinda- og uppfinningamanna aðeins til u.þ.b. 20 ára með einkaleyfum. Þetta er illskiljanlegt misræmi.

Einar Stefánsson


mbl.is Höfundarréttur laga verður 70 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærum af reynslunni

Enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem kom okkur hálfa leið inn í Evrópusambandið, stóð flokkurinn gegn fullri inngöngu í  sambandið og upptöku Evru. Þetta var álitamál til skamms tíma. Rökin gegn inngöngu fólust m.a. í því að sjálfstæð peningastefna og eigin mynt gæfi okkur svigrúm til að stýra íslensku efnahagslífi í samræmi við íslenskar efnahagssveiflur. Þessi hugmynd, „sjálfs er höndin hollust", var sannfærandi á sínum tíma og átti m.a. þátt í því að telja undirritaðan á að innganga í ESB væri óskynsamleg. Þessi rök hafa hins vegar tortímst í þeim Ragnarökum, sem við upplifum nú. 

Önnur röksemd gegn inngöngu í ESB var sú að sem rík þjóð myndum við þurfa að greiða miklu meira til sambandsins, en við fengjum til baka. Þetta voru líka sannfærandi rök á sínum tíma, en hafa skyndilega leyst með því að við erum ekki lengur rík þjóð.  

Í ljósi reynslunnar hafa sum veigamestu rök flokksins gegn ESB aðild fallið úr gildi og eftir stendur helst einhver óvissa um fiskimiðin, sem skýrist vart nema í aðildarviðræðum.  Þjóðaratkvæði hlýtur svo að ákveða, hvort viðræður hafi leitt til viðunandi skilyrða til inngöngu í Evrópusambandið.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aniridia - Vanþroski lithimnu augans

Það er skemmtileg tilviljun að nóvemberblað Acta Ophthalmologica, alþjóðlegs augnlæknatímarits með ritstjórnarskrifstofur í Reykjavík, birtir 4 vísindagreinar og ritstjórnargrein um vanþroska á lithimnu augans, aniridia.  Þessar greinar má nálgast á <www.pubmed.org> og slá inn leitarorðinu "aniridia" eða "acta ophthalmologica and aniridia".

Aniridia finnst í einum af hverjum 72000 einstaklingum í Skandínavíu. Sjúkdómurinn á rætur í galla í erfðaefni og getur lagst á ýmsa hluta augans, en er mest áberandi að því leyti að lithimnu augans vantar. Meðferð er yfirleitt erfið og árangur takmarkaður.

Í fljótu bragði finnst ekki ritrýnd greinargerð í vísindatímariti um fréttina í Mbl.is.  Það vekur efasemdir, ef vísindalegar niðurstöður eru birtar í dagblöðum en ekki vísindaritum, þar sem sannleikur frásagnarinnar er rannsakaður.  Blaðamenn og almenningur geta leitað að ritrýndum greinum vísindatímarita í læknisfræði á <www.pubmed.is> og greint þannig á milli flugufregna og staðfestra vísindarannsókna.


mbl.is Getur séð liti í fyrsta skipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nánar um "Hvít augu"

Frétt Mbl.is um hvít augu geymir sannleikskorn. Það sem átt er við er að ljósop eða sjáaldur augans getur tekið á sig hvítan lit í sumum sjúkdómum. Ljósopið er venjulega svart, en þegar ljósmyndir eru teknar með leifturljósi ("flassi") sést rauð endurspeglun augnbotnsins á myndinni.

Hvítleitt ljósop er sjúkdómsmerki og sérstaklega mikilvægt í börnum. Það sést hjá börnum með ský á augasteini og sömuleiðis getur það sést í meðfæddu krabbameini, retinoblastoma, sem getið er í fyrrnefndri frétt.  Í fréttinni er sagt að meðferð hafi komið í veg fyrir að krabbameinið berist milli augna. Þetta er ekki alls kostar rétt. Retinoblastoma getur orðið til í einu eða báðum augum samtímis og jafnvel líka í pineal kirtlinum í heilanum, sem stundum er nefndur þriðja augað.  Rétt er, að tímanleg greining og meðferð retinoblastoma getur bjargað bæði sjón og lífi, enda hafa orðið gríðarlegar framfarir í meðferð krabbameinsins á liðnum áratugum. 

 Blaðamenn og lesendur, sem vilja kynna sér rannsóknir um þennan sjúkdóm eða aðra, geta farið á heimasíðu Bandaríska Læknisfræðibókasafnsins <www.pubmed.org> og slegið inn "retinoblastoma" eða "leukocoria" fyrir hvítt ljósop. Þar má t.d. finna nýlega grein  eftir Haider og samstarfsmenn í Pakistan, þar sem 60% barna með hvít ljósop voru með ský á augasteini, 11% voru með retinoblastoma í einu auga og 7% í báðum. Færri voru með sjónhimnulos og aðra sjúkdóma í sjónhimnu og glerhlaupi.


mbl.is Hvít augu hættumerki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Einar Stefánsson

Höfundur

Einar Stefánsson
Einar Stefánsson
Yfirlæknir og prófessor í augnlækningum
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband